Fjölþjóðastarf

Samstarf við alþjóðastofnanir er lykilþáttur í þróunarstarfi íslenskra stjórnvalda. Samstarfið fer fram með þrennum hætti: Með almennum framlögum, með framlögum til einstakra verkefna á vegum stofnunar og með störfum íslenskra sérfræðinga á vettvangi fyrir alþjóðastofnanir.

Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 er lögð áhersla á fjórar lykilstofnanir: Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Alþjóðabankann (World Bank) og Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU). Á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar er auk þess lögð áhersla á Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóð SÞ (CERF) og Samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Ísland styður auk þess við starfsemi annarra stofnana SÞ sem allar eiga það sameiginlegt að gegna lykilhlutverki í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og neyðar- og mannúðaraðstoð, þótt þær séu ekki í hópi áðurnefndra lykilstofnana. Má þar nefna Þróunaráætlun SÞ (UNDP) sem er stærsta stofnun SÞ á sviði þróunarmála, en hún er í forsvari fyrir SÞ á vettvangi við veitingu þróunaraðstoðar. Palestínuflóttamannaaðstoðin (UNRWA), sinnir málefnum flóttamanna frá Palestínu og veitir tæplega fimm milljónum landflótta Palestínumönnum í Miðausturlöndum menntun, heilsugæslu og félagslega aðstoð. Þá hefur Mannfjöldasjóður SÞ (UNFPA) einnig hlotið framlög frá Íslandi, en hann starfar á sviði mannfjöldaþróunar og kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda. Hluta framlags íslenskra stjórnvalda hefur verið veitt til sérstaks sjóðs á vegum stofnunarinnar sem miðar að því að útrýma fistli í þróunarlöndunum og aðstoða konur sem þjást af fistli við að ná heilsu með einfaldri skurðaðgerð. Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR), sem vinnur að málefnum flóttamanna um allan heim með sérstaka áherslu á mannréttindi flóttamanna og vernd þeirra hefur einnig verið veittur stuðningur ásamt Landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), sem er helsta stofnun SÞ á sviði landbúnaðar-, fiskimála og skógræktar, en verkefni hennar á sviði þróunarsamvinnu miða að því að auka fæðuöryggi.