Malaví

Almennt

Malaví er land á stærð við Ísland í suðausturhluta Afríku og telst lítið land á afrískan mælikvarða, eða um 120 þúsund ferkílómetrar að stærð. Landið er eitt það þéttbýlasta í Afríku með um 13 milljónir íbúa og jafnframt meðal fátækustu landa í heimi. Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Landið er þéttbýlt en frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði.  Te-, kaffi-, gúmmí-, og tóbaksrækt til útflutnings, en maís, kassavarót, hrísgrjón og kartöflur eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

Samstarfsáætlun við Malaví 2012-2016       

Úr ársskýrslu 2014

Árið 2014 var kosningaár í Malaví. Kosið var til forseta, þings og sveitarstjórna á einu bretti. Setti þetta óneitanlega mikinn svip á árið og líklega gleymdust tímabundið mörg vandamál sem malavíska þjóðin stendur frammi fyrir. Hagvöxtur ársins þótti ásættanlegur, 5,7%, en margvíslegur mótvindur dró úr jákvæðum áhrifum hans. Fyrst ber að nefna háa verðbólgu sem hefur hrjáð Malaví frá 2012. Meðalverðbólga ársins var rétt innan við 24% sem olli fátæku fólki í landinu miklum vandræðum. 

Annað sem hefur haft mikil áhrif til hins verra er að samstarfsþjóðir Malava hættu beinum fjárlagastuðningi við ríkissjóð landsins seint á árinu 2013. Gerðist þetta í kjölfar fjármálahneykslis hjá ríkinu. Afleiðingar þessarar ákvörðunar samstarfsþjóðanna gerði að verkum að ríkið þurfti að draga gríðarlega úr útgjöldum, en engu að síður var ríkissjóður rekinn með miklum halla. Skuldir ríkisins uxu mikið, ekki síst vanskilaskuldir. Er álitið að vanskilaskuldir í lok árs nemi nær 8% af vergri landsframleiðslu eins árs, en reyndar er ekki víst að öll kurl séu komin til grafar í þeim efnum. Sem bláfátækt og mjög skuldsett land var Malaví veitt eftirgjöf skulda árið 2006. Því miður nálgast landið hratt að vera komið í svipaða skuldastöðu og þá var. 

Þessi slæma staða hefur komið harkalega niður á grunnþjónustu í landinu, t.d. mennta- og heilbrigðisþjónustu. Endar nást ekki saman í hinum daglega rekstri og skiljanlega sitja nýframkvæmdir og viðhald eigna á hakanum. Undir lok ársins virtist þó aðeins rofa til. Malavísk stjórnvöld voru þá á góðri leið með að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til hljóta stuðning á nýjan leik. Vitað er að ýmsar samstarfsþjóðir líta á samstarf við gjaldeyrissjóðinn sem grunnforsendu þess að hefja fjárlagastuðning á ný. Einnig virtist malavíski gjaldmiðillinn ná fótfestu undir lok ársins eftir nær stöðugt fall síðan 2012, en stöðugur gjaldmiðill er nauðsynlegur til að ná tökum á verðbólgu. 

Því gætti hóflegrar bjartsýni þegar árið 2015 gekk í garð.

Lykiltölur:

 • Mannfjöldi: 15.9 milljónir (UNDP, 2007/08)
 • Höfuðborg: Lilongwe
 • Stærð landsins: 118,484 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Enska, Chichewa (bæði opinber)
 • Helstu trúarbrögð: Kristni, Islam
 • Lífslíkur: 55 ár (karlar), 55 ár (konur) (SÞ)
 • Læsi (15 ára og eldri): 74,8% (SÞ)
 • HDI: 160 (UNDP 2012)
 • Gjaldmiðill: 1 Malaví kwacha (MK) = 100 tambala
 • Helstu útflutningsafurðir: Tóbak, te, sykur, bómull
 • VLF á mann (PPP): 360 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2011)
 • Landslén: .mw
 • Landsnúmer: +265

Ýmsar upplýsingar um Malaví - tenglar:

Fréttatenglar: