Malaví

Almennt

Malaví er land á stærð við Ísland í suðausturhluta Afríku og telst lítið land á afrískan mælikvarða, eða um 120 þúsund ferkílómetrar að stærð. Landið er eitt það þéttbýlasta í Afríku með um 13 milljónir íbúa og jafnframt meðal fátækustu landa í heimi. Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Landið er þéttbýlt en frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði.  Te-, kaffi-, gúmmí-, og tóbaksrækt til útflutnings, en maís, kassavarót, hrísgrjón og kartöflur eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

Samstarfsáætlun við Malaví 2012-2016       

Úr skýrslu utanríkisiráðherra 2017:

Í Mangochi-héraði í Malaví vinnur sendiráðið með héraðsyfirvöldum að framkvæmd sameiginlegrar verkefnastoðar sem héraðsyfirvöld bera ábyrgð á og framkvæma og fá þau stuðning við að byggja þjónustuna upp. Hlutverk sendiráðsins er að veita tæknilega aðstoð við stefnumótun og áætlunargerð í framkvæmdum verkþátta. Það hefur virkt eftirlit með fjármálastjórn og gerð verkáætlana og tekur þátt í vöktun og árangursmati.

Á síðari hluta 2016 var ákveðið að framlengja verkefnin um eitt ár og bæta inn nýjum afurðum. Verið er að ljúka við gerð nýrrar fjögurra ára verkefnastoðar sem gert er ráð fyrir að taki gildi árið 2017.

Í lýðheilsuþætti samstarfsins eru helstu markmiðin að draga úr mæðra- og ungbarnadauða. Tilbúin er til notkunar ný fæðingardeild við héraðsspítalann í Mangochi og fjórar minni fæðingardeildir í dreifbýli, auk biðskýla við fæðingardeildir og heilsuskýla í mesta dreifbýlinu. Einnig hefur verið bætt aðstaða við margar heilsugæslustöðvar og keyptar sjúkrabifreiðar. Heilbrigðisstarfsfólk hefur fengið þjálfun á ýmsum sviðum.

Í menntaþætti samstarfsins er stefnt að auknum gæðum menntunar í grunnskólum héraðsins. Skólar og kennarabústaðir eru byggðir og lagfærðir, kennarar og skólastjórnendur eru þjálfaðir og leitast er við að börnin fái nauðsynleg námsgögn. Nýmenntaðir kennarar hafa þegar tekið til starfa í skólunum.

Í vatns- og salernisþætti samstarfsins er áhersla lögð á að bæta heilsufar með auknu aðgengi að heilnæmu vatni og hreinlætisaðstöðu. Gert var ráð fyrir um 350 nýjum eða endurbættum vatnsbólum (brunnum og borholum) á fjórum árum. Framkvæmdir hafa gengið vel og í árslok 2016 voru borholurnar orðnar fleiri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Hægar hefur gengið að ljúka salernisþætti verkefnisins en sá þáttur var þó langt kominn við lok árs 2016. 

Lykiltölur:

 • Mannfjöldi: 15.9 milljónir (UNDP, 2007/08)
 • Höfuðborg: Lilongwe
 • Stærð landsins: 118,484 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Enska, Chichewa (bæði opinber)
 • Helstu trúarbrögð: Kristni, Islam
 • Lífslíkur: 55 ár (karlar), 55 ár (konur) (SÞ)
 • Læsi (15 ára og eldri): 74,8% (SÞ)
 • HDI: 160 (UNDP 2012)
 • Gjaldmiðill: 1 Malaví kwacha (MK) = 100 tambala
 • Helstu útflutningsafurðir: Tóbak, te, sykur, bómull
 • VLF á mann (PPP): 360 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2011)
 • Landslén: .mw
 • Landsnúmer: +265

Ýmsar upplýsingar um Malaví - tenglar:

Fréttatenglar: