Mósambík

Almennt

Mósambík er í suðausturhluta Afríku með landamæri að Tansaníu í norðri, Malaví og Sambíu í norðvestri, Simbabve í vestri og Suður-Afríku og Svasílandi í suðri. Landið er um 800.000 km² að stærð og strandlengjan, sem er 2.400 km löng, liggur að Indlandshafi. Um 85% íbúa Mósambíkur byggja afkomu sína á akuryrkju, svo sem kassavarót, maís og hrísgrjónum. Meðal helstu útflutningafurða eru ál, jarðgas og skelfiskur en Mósambík hefur yfir verðmætum humar- og rækjumiðum að ráða.

Samstarfsáætlun við Mósambík er í vinnslu.

Úr ársskýrslu 2014

Mósambík er í hópi þeirra landa í Afríku sem hafa haft hvað mestan hagvöxt síðasta áratuginn. Árið 2014 var engin undantekning, hagvöxtur var um 7,5%. Þrátt fyrir þetta vermir Mósambík 10. neðsta sætið á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Tvöfalt hagkerfi hefur verið að myndast í landinu með mikilli erlendri fjárfestingu sem hefur að mestu verið bundin við námuiðnað, eins og kola-, gas- og olíuiðnað, en í litlum tengslum við aðra hluta hagkerfisins. Lítil stétt hátekju- og millitekjuhóps hefur verið að festa rætur en um 80% íbúanna búa enn í sveitum og stunda sjálfsþurftarbúskap þar sem framleiðni er mjög lítil. Aðeins lítið brot landsmanna hefur formlegt starf, menntunarstig er lágt, innviðir veikir og fátækt er gríðarlega útbreidd og djúpstæð. Landið hefur því enn mikla þörf fyrir utanaðkomandi stuðning.

Sami flokkurinn, Frelimo, hefur setið á valdastóli í fjóra áratugi. Borgarastyrjöldin sem stóð yfir frá 1976-1992 hafði mikil eyðileggjandi áhrif og skýrir að hluta veika stöðu landsins enn þann dag í dag. Síðan friður komst á hafa orðið ýmsar framfarir almenningi til hagsbóta. Uppbygging hefur verið á innviðum samfélagins, og má þar nefna að flest börn komast nú í skóla, þótt gæði menntunarinnar sé enn verulega ábótavant. Landið er mjög stórt og uppskipt eftir pólitískum línum sem hefur sitt að segja um að hingað til hefur ekki tekist að lyfta meirihluta landsmanna upp úr fátæktinni.

Þann 15. október voru haldnar þing- og forsetakosningar. Frelimo bar sem fyrr sigur úr býtum og forsetaframbjóðandi flokksins, Filipe Nyusi, var kjörinn nýr forseti landsins. Kosningarnar voru að mestu friðsamlegar en þó var eitthvað um róstur í mið- og norðurhéruðum landsins þar sem helsti stjórnarandstöðuflokkurinn Renamo nýtur mikils stuðnings. Margt bendir til að friðurinn á milli landshluta sé enn brothættur.

Lykiltölur:

 • Mannfjöldi: 24,5 milljónir (Sameinuðu þjóðirnar, 2012)
 • Höfuðborg: Maputo
 • Stærð landsins: 812,379 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Portúgalska (opinbert mál), Makua-Lomwe, Tsonga, Shona, Swahili
 • Helstu trúarbrögð: Þjóðtrú, Múhameðstrú, Kristni
 • Lífslíkur: 50 ár (karlar), 52 ár (konur) (SÞ)
 • Læsi (15 ára og eldri): 56,1% (SÞ)
 • HDI: 185 (SÞ, 2012)
 • Gjaldmiðill: 1 metical = 100 centavos
 • Helstu útflutningsafurðir: Ál, kol og málmar.
 • VLF á mann (PPP): 460 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2011)
 • Landslén: .mz
 • Landsnúmer: +258


Ýmsar upplýsingar um Mósambík - tenglar:


Fréttatenglar: