Samstarfsverkefni með UNICEF í Mósambík á sviði vatns-, salernis- og hreinlætismála í fimm héruðum Zambezíufylkis 2014-2017

Sjá upplýsingar um verkefnið í verkefnagrunni

Heiti verkefnis:

UNICEF - Mozambique WASH for Children in Zambézia Province Water supply, sanitation and hygiene in rural communities and schools 2014-2017

Samstarfssamningur er á milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og UNICEF í Mósambík um samstarfsverkefni til þriggja ára á sviði vatns-, salernis- og hreinlætismála í fimm héruðum Zambézíufylkis.

UNICEF sér um framkvæmd verkefnisins og er það unnið með öllum opinberum stofnunum í vatns-, salernis- og hreinlætismálum og nær til allra stjórnsýslustiga í landinu. UNICEF sinnir einnig eftirliti með einstökum verkþáttum og framkvæmd þeirra á meðan ÞSSÍ sinnir reglubundnu eftirliti bæði á vettvangi í héruðunum fimm og í fylkinu, en einnig í gegnum framvinduskýrslur og fundi á landsvísu.

ÞSSÍ hóf á haustdögum samstarf við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Mósambík um þriggja ára verkefni í vatns- og salernismálum í einu fátækasta fylki landsins, Zambézíu. UNICEF hefur sérhæft sig í þessum málaflokki og stuðningur ÞSSÍ við hann hvílir á vilja til að sameina krafta, samræma starfsemi og draga úr stjórnsýslukostnaði – með árangur, skilvirkni og sjálfbærni að leiðarljósi.

Aðeins 26% af 4,7 milljónum íbúum Zambézíufylkis hafa aðgang að hreinu vatni og ekki nema 6% að bættri salernisaðstöðu. Á framkvæmdatímanum er ætlunin að koma upp viðunandi salernisaðstöðu fyrir 300 þúsund íbúa í fimm héruðum í Zambézíu, bæta aðgengi 48 þúsunda að heilnæmu vatni og sjá til þess að 40 skólar með 14 þúsund skólabörn fái hreint vatn og salernisaðstöðu. Jafnframt er miðað að því að styrkja getu stjórnsýslustofnana í héraði til að annast þjónustuna. Sérstök áhersla er lögð á salernismál, sökum þess hve alvarlegur skortur er á slíkri aðstöðu í dreifbýli Zambézíu. Verkefnið snertir ýmsa aðra málaflokka eins og heilbrigðis-, mennta- og mannréttindamál.

Samkvæmt samningi sem lá fyrir í lokadrögum í árslok veitir ÞSSÍ allt að 3,5 milljónum Bandaríkjadala til verkefnisins en heildarkostnaður við það er áætlaður 8,1 milljón bandaríkjadala. Hlutur ÞSSÍ er því 43% af heildarkostnaði á móti UNICEF og tveimur öðrum þróunarsamvinnustofnunum, þeirri bresku (DfID) og sænsku (Sida).

Framkvæmd verkefnisins er undir stjórn UNICEF en hún er samhæfð áætlun mósambískra stjórnvalda og unnin með opinberum stofnunum í vatns-, salernis- og hreinlætismálum á öllum stjórnsýslustigum í landinu. Einkageirinn, félagasamtök og íbúar hafa einnig aðkomu að verkefninu. UNICEF sinnir eftirliti með einstökum verkþáttum og framkvæmd þeirra á meðan ÞSSÍ fylgist með að fjármunum sé rástafað í samræmi við áætlanir og sinnir reglubundnu eftirliti um framvindu.

Í október réði UNICEF sérfræðing í vatns- og salernismálum til starfa með aðsetur í Quilemane, höfuðborg Zambéziu fylkis. Sérfræðingurinn er með vinnuaðstöðu á Skipulags- og byggingar-sviði  fylkisins (DPOPH). Fyrsta verkefni sérfræðingsins er vinna við kortlagningu vatns – og salernismála í fylkinu í samstarfi við fylkis- og héraðsyfirvöld. Markmið kortlagningarinnar er að greina stöðu vatns- og salernismála þar og velja þau fimm héruð sem verkefnið mun ná til. Búið var að velja tvö héruð af þeim fimm, Gurué og Gile sem eru í norðausturhluta fylkisins. Þar er staðan í málaflokknum mjög slæm og voru þau því valin sem forgangshéruð.

Í nóvember fóru fulltrúar ÞSSÍ með UNICEF í fimm daga vettvangsferð til Zambéziu. Markmið ferðarinnar var m.a. að kynna ÞSSÍ fyrir samstarfsaðilum verkefnisins, þ.e. skipulags- og byggingarviði, heilbrigðisviði og menntasviði fylkisins. Ennfremur voru aðstæður skoðaðar í vatns- og salernismálum í skólum og þorpum á svæðinu. Með í ferðinni var kynningarstjóri ÞSSÍ sem safnaði upplýsingum og myndefni um verkefnið til að kynna á Íslandi. Byrjað var að kynna samstarfið á vefsíðu og í Heimsljósi, veftímariti ÞSSÍ í desember.