Jarðhitaleit í austanverðri Afríku

Sjá upplýsingar um verkefnið í verkefnagrunni

Úr ársskýrslu 2014:

Jarðhitaverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og Norræna Þróunarsjóðsins (NDF) miðar að því að aðstoða lönd í sigdalnum í Austur Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar, með það að markmiði að auka möguleika þessara landa til framleiðslu sjálfbærrar og hreinnar orku. Vonast er til að við lok verkefnisins hafi löndin skýra mynd af þeim möguleikum sem til staðar eru á sviði jarðhita, þar sem möguleikar eru fyrir hendi séu skilgreind svæði fyrir mögulegar tilraunaboranir, og getu og mannauð til að fylgja málum eftir á næstu stigum til framleiðslu raforku eða beinnar nýtingar jarðhita s.s. við þurrkun matvæla. Íslensk jarðhitaþekking gegnir lykilhlutverki í því að skilgreina allar rannsóknir og tryggja gæði þeirra svo og við þjálfunarverkefni.

Verkefnið er samstarfsverkefni milli Íslands, Alþjóðabankans og Norræna þróunarsjóðsins sem leggur 5 milljónir evra til framkvæmdar þess á móti framlagi Íslands að sömu upphæð yfir fimm ára tímabil. Undir samstarfi Íslands og Alþjóðbankans er miðað við að verkefni ÞSSÍ og NDF taki að sér fyrstu skref jarðhitarannsókna, en á seinni stigum verkefna taki bankinn við og standa að frekari þróun verkefna s.s. tilraunaborunum, þar sem frumrannsóknir hafa skilgreint vænlega möguleika. Alls hafa nú tíu ríki óskað formlega eftir samstarfi, Eþíópía, Sambía, Tansanía, Búrúndí, Rúanda, Kenía, Djíbútí, Malaví, Úganda og Kómoreyjum, en einnig óskaði UNEP eftir samstarfi við ÞSSÍ um framkvæmd jarðhitarannsókna í Erítreu og var gengið frá samstarfssamningi um það verkefni í lok árs 2014. Innleiðing verkefnisins er nú þegar hafin í öllum þessum löndum nema Malaví og Kómoreyjum, þar sem viðræður eru enn í gangi við löndin um mögulega aðkomu.

Þar sem allmörg framlagsríki og stofnanir starfa í tengslum við jarðhitamál í Afríku er mikilvægur hluti af framkvæmd verkefnisins samstarf og samhæfing við aðrar stofnanir. Þannig tekur ÞSSÍ reglulega þátt í fundum og samtali við Alþjóðabankann, Evrópusambandið, Umhverfisstofnun SÞ og Afríkusambandið auk fleiri aðila um jarðhitaþróun á svæðinu. Í maí 2014 var til að mynda haldinn á Íslandi árlegur samstarfsfundur gjafaríkja og landa í Afríku um jarðhita, og mættu yfir 50 fulltrúar til fundarins.  Fulltrúar ÞSSÍ ásamt Einar Gunnarssyni þáverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis sóttu einnig Argeo – 5 ráðstefnuna í Arusha í Tansaníu um haustið, þar sem verkefnin voru kynnt og rætt var við fulltrúa stofnana og ríkja.

Nánari upplýsingar í ársskýrslu 2014